Innlent

Vörubílstjórar hafa sig á brott en segjast ekki hættir

MYND/Jóhann

Aðgerðum vörubílstjóra á Suðurlandsvegi er að ljúka og eru þeir að tínast á brott að sögn fréttamanns Vísis sem er á staðnum.

Bílstjórnarnir lokuðu veginum við Rauðavatn um klukkan níu í morgun og tóku um 30 bílar þátt í aðgerðunum. Lögregla fjölmennti á vettvang og voru hið minnsta fjórir lögreglubílar og fjögur mótorhjól á staðnum ásamt bíl frá sérsveit lögreglunnar.

Enginn bílstjóranna var handtekinn en teknar voru niður upplýsingar um þá bílstjóra sem höfðu sig mest í frammi. Að sögn fréttamanns Vísis hótuðu sumir bílstjórarnir að mæta með kylfur og barefli og sögðu þeir aðgerðum sínum hvergi nærri lokið. Þeir féllust þó á að færa bíla sína og óku á brott og þeyttu flautur sínar.

Lögregla var með fjölmennt lið á vettvangi í morgun.MYND/Sigurjón

Sturla Jónsson, talsmaður vörubílstjóra, sagði í samtali við blaðamann Vísis á staðnum að hann vonaðist til þess að það væri ekki að færast harka í leikinn þrátt fyrir að menn hefðu hótað kylfum og bareflum í hita leiksins. Þá sagðist hann ekki kippa sér upp við það að lögregla mætti með sérsveitarbíl á staðinn.

Sturla sagði mótmælum vörubílstjóra ekki linna fyrr en ríkisstjórnin hlustaði á kröfur þeirra. Þær snúast meðal annars um að lækka álögur á eldsneyti og að breyta hvíldartímareglum vörubílstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×