Innlent

Um þrjá mánuði að vinna sér inn ævilaun verkafólks

Laun æðsta stjórnanda Kaupþings árið 2006 jafngiltu því að í kringum 10. mars væri hann búinn að vinna sér inn upphæð sem venjulegt verkafólk er alla starfsævina að strita fyrir.

Enn fremur tók það 321 fullvinnandi verkakonur allt árið að vinna fyrir launum hans. Þetta kemur fram í athugun Alþýðusambands Íslands á svokölluðum ofurlaunum nokkurra stjórnenda í efnahagslífinu sem birt er í nýrri hagspá sambandsins.

 

„Við hljótum að spyrja að samfélagslegri ábyrgð stjórnenda sem þiggja slík laun í ljósi þeirrar staðreyndar að um tuttugu ára skeið hefur ríkt sátt um að launafólk sýni ábyrgð í launakröfum sínum til þess að hér mætti ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu," segir í skýrslu ASÍ.

Þá segir í skýrslunni að síðustu ár hafi ráðstöfunartekjur heimilanna ekki hrokkið fyrir neyslu þeirra, hvað þá staðið undir heildarútgjöldum. Skuldirnar hafi því hlaðist upp og heimilin séu orðin viðkvæmari en áður fyrir sveiflum í tekjum, verðlagi, gengi og húsnæðisverði. „Fjármálaleg skilyrði heimilanna hafa síðan versnað mikið undanfarna mánuði. Útlánsvextir hafa hækkað, verðbólga ýtt upp eftirstöðvum skulda og gengisfall krónunnar aukið greiðslubyrði gengisbundinna lána. Í þessu ljósi er eðlilegt að spyrja hvort heimilin séu líkleg til að lenda í greiðsluerfiðleikum á næstunni og þá hvernig þau eru í stakk búin til að takast á við þá," segir ASÍ.

Harðnar á dalnum

ASÍ tekur undir með greiningardeild Glitnis sem sagði fyrr í dag að nú harðnaði á dalnum og í hönd færi snörp aðlögun hagkerfisins. ASÍ segir hagsveiflu síðustu ára enda með hefðbundnum hætti: gengisfalli, mikilli verðbólgu, samdrætti í atvinnu og minnkandi kaupmætti.„Gagnvart þessari stöðu standa stjórnvöld ráðalítil. Þær raddir gerast því æ háværari að mikilvægt sé nú að skoða af fullri alvöru inngöngu í Evrópusambandið og í framhaldinu að taka upp evru," segir ASÍ og bendir á að ákvörðun um ESB-aðild beri að taka með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

„En ef við teljum að langtímahagsmunum okkar sé best borgið innan Evrópusambandsins og með upptöku evru þá er ekki eftir neinu að bíða því að til skamms tíma yrðu áhrifin jákvæð. Með því að stefna að evruupptöku fælist viss skuldbinding um að við ætluðum að ná tökum á efnahagsstjórninni og ákveðið ankeri fælist í því aðlögunarferli sem við yrðum að hefja strax.

Óháð aðsteðjandi efnahagsvanda er gagnlegt að líta um öxl í lok hagsveiflunnar og skoða hvernig þjóðfélagið hefur þróast á undanförnum árum," segir enn fremur í vorskýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×