Skoðun

Trúnaðarmenn SFR

SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu er með um 7000 félagsmenn og hefur á að skipa um 250 trúnaðarmönnum sem saman mynda trúnaðarmannaráð. Trúnaðarmenn eru lífæð stéttarfélagsins og tenging okkar við vinnustaði félagsmanna. Öflugt trúnaðarmannakerfi er lykillinn að farsælu starfi innan stéttarfélagsins og viljum við því hnykkja á mikilvægi þess að kosnir séu trúnaðarmenn fyrir hönd félagsmanna SFR á öllum vinnustöðum.

Vellíðan félagsmanna okkar og starfsöryggi er ofarlega í huga SFR. Þrátt fyrir að opinberir starfsmenn búi við annað atvinnuöryggi en starfsmenn á hinum almenna markaði er farið að gæta óöryggis hjá félagsmönnum okkar. Fregnir af lokunum deilda hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi og flötum niðurskurði hjá hinu opinbera um 10% veldur óöryggi og áhyggjum meðal okkar félagsmanna og enn er ekki komið í ljós hver áhrif efnahagsástandsins verða á heimilin í landinu. Viljum við því efla og bæta þjónustu við okkar félagsmenn m.a. með því að hlúa að trúnaðarmönnum.

Hlutverk trúnaðarmanna er m.a. að tryggja að kjarasamningar séu haldnir og réttur starfsmanna virtur. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að eiga öfluga talsmenn stéttarfélaganna, sem standa vörð um kjör félagsmanna okkar. Trúnaðarmenn standa þó aldrei einir því stjórn og starfsmenn félagsins eru þeim til stuðnings ásamt trúnaðarmannaráði SFR. Trúnaðarmannaráð SFR er öflugt og erum við mjög stolt af störfum þess.

Starf trúnaðarmanna er gefandi og felur í sér tækifæri til að bæta við sig þekkingu og reynslu á sviði starfsmannamála. Einnig gefur það innsýn í rekstur stofnanna og starfsemi stéttarfélaga. Góður trúnaðarmaður þarf fyrst og fremst að hafa áhuga á vellíðan og starfsöryggi félaga sinna. Hann þarf að vera vakandi fyrir vinnuumhverfinu og eiga auðvelt með mannleg samskipti og ríka réttlætiskennd.

SFR hvetur félagsmenn til að standa vörð um réttindi sín á þessum víðsjárverðu tímum, hugum að starfsumhverfi okkar og réttindamálum. Saman erum við 7000 raddir - öflug og sterk. Stöndum vörð um kjörin okkar, kjósum fulltrúa stéttarfélagsins á alla vinnustaði.

Höfundur hefur umsjón með starfi trúnaðarmanna hjá SFR.








Skoðun

Sjá meira


×