Erlent

Obama boðar aðgerðir í atvinnu- og húsnæðismálum

Skattaívilnanir fyrir fyrirtæki sem skapa störf og aðstoð fyrir þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðismála var meðal þess sem Barack Obamba, forsetaframbjóðandi demókrata, kynnti sem björgunaráætlun sína fyrir millistéttina í Bandaríkjunum.

Obama hélt ræðu í Ohio nú undir kvöld þar sem hann kynnti áherslur sínar í efnahagsmálum en líkt og aðrar þjóðir glíma Bandaríkjamenn við afleiðingar lausafjárkreppunnar sem skekur heiminn. Hafa 750 þúsund manns misst vinnuna í landinu það sem af er ári.

Aðgerðaáætlun Obama er í aðalatriðum í fjórum liðum. Hún gerir ráð fyrir lengri fresti gagnvart tilteknum bönkum fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með húsnæðislán og þrjú þúsund dollara skattaívilnun til fyrirtækja fyrir hvert starf sem þau skapa. Þá er gert ráð fyrir skattaafslætti fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun og enn fremur vill Obama búa til alríkissjóð til þess að aðstoða ríki og borgir í þeim erfiðleikum sem fram undan eru. ,,Þetta er áætlun sem hefst á einu orði sem allir hugsa um, og það er stafað S-T-Ö-R-F," sagði Obama þegar hann kynnti áætlunina.

Obama hefur sótt í sig veðrið í því gjörningaveðri sem gengið hefur yfir fjármálaheiminn og samkvæmt nýrri könnun ABC-fréttastofunnar og bandaríska stórblaðsins Washington Post hefur hann tíu prósenta forskot á keppinaut sinn John McCain, 53 prósent gegn 43. Þá nýtur Obama stuðnings nærri tveggja þriðju af þeim sem telja efnahagsmálin mikilvægasta verkefnið fram undan.

John McCain neitar hins vegar að gefa eftir og segir fjölmiðla hafa afskrifað hann án þess að kosningar hafi farið fram. Í ræðu í Virginíu í dag lagði hann ekki fram neinar tillögur í efnahagsmálum en von er á áætlun úr röðum Repúblikana síðar í þessari viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×