Erlent

Eftirskjálfti skók Sichuan-hérað í morgun

Öflugur eftirskjálfti skók Sichuan-hérað í Suðvestur-Kína í morgun. Skjálftinn fannst alla leið til Peking sem er í um fimmtán hundruð kílómetra fjarlægð frá upptökum skjálftans sem reið yfir fyrir tæpum hálfum mánuði og varð tugum þúsunda að bana.

Engar fréttir hafa borist af manntjóni eða skemmdum í morgun og ekki er vitað á þessari stundu hversu öflugur eftirskjálftinn var. Ráðherra vatnsmála í Kína varar við því að sextíu og níu stíflur í Sichuan-héraði séu við það að bresta vegna jarðhræringanna. Áttræður karlmaður var dreginn úr rústum húss í Mianchu í fyrradag en fyrst var greint frá því í morgun.

Hann hafði legið grafinn í rústunum í rúma ellefu sólahringa. Maðurinn er lamaður að hluta. Kona hans hélt lífi í honum. Hún náði til hans án þess þó að geta losað hann. Hún færði honum þess í stað mat og drykk þar til björgunarmenn komu á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×