Innlent

Grátklökkur yfir endurheimtri æru

Eftir tíu ára málaferli hefur Eggert Haukdal, fyrrverandi alþingismaður, endurheimt æru sína en Hæstiréttur sýknaði hann fyrir helgi af ákæru um fjárdrátt. Sjálfur kveðst Eggert hafa verið fórnarlamb pólitískra ofsókna og illmennsku.

Það fer ekki á milli mála þegar knúð er dyra að Bergþórshvoli að þessi miklu málaferli hafa tekið sinn toll af hinum 75 ára gamla fyrrverandi bónda, oddvita og alþingismanni Sjálfstæðisflokksins. En fyrir helgi vann hann kannski sinn mikilvægasta sigur. Mannorð hans var hreinsað. Hann er sýkn saka af ákæru um fjárdrátt.

Málið má rekja áratug aftur í tímann þegar endurskoðandi Vestur-Landeyjahrepps taldi sig finna eitthvað gruggugt í bókhaldi hreppsins. Ákæran vakti mikla athygli enda hafði Eggert gegn þingmennsku um sautján ára skeið, var frægur fyrir klofningsframboð og að standa í hárinu á flokksforystunni. Hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi en neitaði að gefast upp. Loks í þriðju tilraun fyrir Hæstarétti fékk hann í gegn endurupptöku og situr nú uppi sem sigurvegari, en eftir mikil fjárhagsútgjöld, sem hann vonast nú til að fá til baka. En þrátt fyrir sigur er hann bitur út í dómskerfið eins og fram kom í viðtali í fréttum Stöðvar 2.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×