Handbolti

Vongóður um að handbolti.is haldi lífi

Hlynur Sigmarsson hefur verið öflugur í fréttaskrifum á handbolti.is
Hlynur Sigmarsson hefur verið öflugur í fréttaskrifum á handbolti.is Mynd/E.Stefán

Hlynur Sigmarsson hefur verið mikið í umræðunni í kring um handboltann síðustu daga, en hann ákvað um helgina að hætta afskiptum af handbolta eftir tap fyrir Guðmundi Ingvarssyni í formannsslagnum í HSÍ.

Hlynur hefur verið aðalsprautan á bak við vefsíðuna handbolti.is undanfarin misseri, en í þættinum Skjálfanda á X-inu 977 í hádeginu tilkynnti Hlynur að hann hyggðist hætta skrifum á handbolti.is.

Það yrði væntanlega reiðarslag fyrir síðuna, þar sem Hlynur hefur haldið úti megninu af öflugum skrifum þar og hefur boðið upp á lífleg viðtöl og myndbönd úr handboltanum.

Vísir hafði samband við Hlyn í dag og spurði hann hvort þetta þýddi að handbolti.is myndi lognast út af.

"Ég hef haft mjög gaman af þessu en með breyttum aðstæðum hefði maður viljað skoða einhverja aðra fleti á þessu. Ég er reyndar búinn að setja nokkra peninga í þetta, þannig að ég verð að skoða hvernig ég tek á þessu," sagði Hlynur.

Hann segir nokkra aðila hafa sett sig í samband með það fyrir augum að leggja til efni á síðuna.

"Það verður að vera skipulag á þessu. Það eru nokkrir menn sem sýnt hafa áhuga og ég verð að kanna hvort er hægt að halda þessu áfram. Það er auðvitað slæmt ef síðan hættir, en maður á aldrei að segja aldrei."

En hefur Hlynur þá skrifað sína síðustu frétt á handbolti.is?

"Maður veit aldrei. Ég á nú örugglega eftir að kveðja. Ég verð bara að sjá til," sagði Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×