Innlent

Tek ekki þátt í að brjóta niður starf sem byggt hefur verið upp

Lögreglumenn koma til fundar með Jóhanni R. Benediktssyni í gær.
Lögreglumenn koma til fundar með Jóhanni R. Benediktssyni í gær. MYND/Stöð 2

„Ég vil ekki taka þátt í því að brjóta niður það starf sem byggt hefur verið upp á síðustu árum," segir Ásgeir J. Ásgeirsson, starfsmannastjóri lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum, um þá ákvörðun sína að hætta störfum hjá embættinu.

Ásgeir er í hópi þeirra fjögurra lykilstarfsmanna hjá embættinu sem í gær tilkynntu að þeir hefðu óskað eftir því að láta af störfum um næstu mánaðamót. Auk hans eru það Jóhann Benediktsson lögreglustjóri, Eyjólfur Kristjánsson, staðgengill hans, og Guðni Geir Jónsson, fjármálastjóri embættisins.

Bæði Jóhann og Eyjólfur hafa deilt harkalega á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í málinu. Jóhann hefur talað um trúnaðarbrest milli sín og ráðherra og Eyjólfur sakar Björn um einelti í garð Jóhanns og lögreglustjóraembættisins vegna hugmynda um uppskiptingu embættisins.

„Þetta er búið að vera makalaust"

Ásgeir segist hverfa frá störfum af sömu ástæðum og Jóhann og Eyjólfur og segist hann hafa fengið starf annars staðar. Hann tekur undir orð Eyjólfs um einelti ráðherra. „Þetta er búið að vera makalaust og mjög furðulegt umhverfi að starfa í og það er skrýtið að horfa á aðferðir stjórnsýslunnar," segir Ásgeir.

Breytingar urðu á embættinu 1. janúar 2007 þegar tollgæsla, öryggiseftirlit og landamæra- og löggæsla á Keflavíkurflugvelli og löggæsla á Suðurnesjum voru færð undir embætti lögreglustjórans. Ásgeir segir að fækkað hafi í liðinu frá því fyrir breytingar. „Við erum núna með 76 lögreglumenn en þeir voru nálægt 90 fyrir sameiningu," segir Ásgeir og bætir við að embættið hafi ekki fengið fjármuni til mönnunar á sama hátt og fyrir breytingar. „Ef þessir hlutir hefðu verið í lagi hefði maður ekki verið á leiðinni út," segir hann enn fremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×