Innlent

Borgin tekur við pólitískum flóttamönnum frá Srí Lanka

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær þá beiðni félags- og tryggingamálaráðuneytisins að taka á móti fyrrverandi túlki íslensku friðargæslunnar á Srí Lanka og konu hans sem fengu fyrr á þessu ári pólitískt hæli hér á landi. Var málinu vísað til meðferðar velferðarsviðs.

Maðurinn sem um ræðir var starfsmaður SLMM, Vopnahléseftirlitsins á Srí Lanka, og var bílstjóri og túlkur starfsmanns friðargæslunnar. Ákveðið var fyrr á þessu ári að veita honum pólitískt hæli þar sem óttast var um öryggi hans í kjölfar þess að vopnahlé stjórnvalda og Tamíltígranna var numið úr gildi fyrr á þessu ári.

Maðurinn og kona hans komu til landsins í síðasta mánuði og í framhaldinu fór félagsmálaráðuneytið fram á það við Reykjavíkurborg að hún tæki á móti fólkinu. Við því varð borgarráð í gær.

Það að Reykjavík gerist móttökusveitafélag fólksins þýðir að borgin útvegar því húsnæði og veitir því sömuleiðis nauðsynlega þjónustu í eitt ár frá komu þess til landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×