Innlent

Vodafonehjólin tekin úr umferð

Vodafone hjólin sem dreift hafði verið til sveitarfélaga á landsbyggðinni hafa verið tekin úr umferð. Upplýsingafulltrúi Vodafone segir hjólin ekki hafa staðist þær gæðakröfur sem gerðar voru til þeirra

Reiðhjólunum var dreift til sveitarfélaga á landbyggðinni víðs vegar um landið og þá stóð einnig til að taka 150 slík í notkun í Reykjavík í lok þessa mánaðar. Hjólin voru öllum aðgengileg án endurgjalds og hafði þetta framtak mælst vel fyrir.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir að hjólin hafi ekki staðist þær gæðakröfur sem gerðar voru til þeirra. Hjólin hafi kallað á mikið viðhald og því hafi verið ákveðið að innkalla öll hjólin. Hann segir það miður að svona hafi farið því framtakið hafi mælst vel fyrir. Hrannar segir óvíst hvort hjólin komi aftur á götuna en á síður von á því, í sumar að minnsta kosti.

Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri, hafði ekki heyrt af innkölluninni þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag. Hann segir hugmyndina góða og vonast til að hægt verði að bjóða borgarbúum þessa þjónustu fljótlega, hvort sem það verður úr öðrum eða viðgerðum hjólaflota.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×