Innlent

Ólafur settur í embætti í fjórða skipti

Ólafur Ragnar Grímsson sór embættiseið sem forseti Íslands í fjórða skipti í dag. Forsetinn hvatti þjóðina til bjartsýni þótt á móti blási í augnablikinu.

Athöfnin var með mjög hefðbundnum hætti eins og vænta mátti. Lúðrasveit Reykjavíkur hóf að leika ættjarðarlög á Austurvelli klukkan þrjú. Klukkan hálf fjögur var gengið til Guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Smávegis óhapp varð þegar Dorrit forsetafrú steig út úr bifreið sinni við Alþingishúsið. Beltið hrundi þá af skautbúningi hennar og lá á jörðinni í þrem eða fjórum hlutum.

Ekki missti forsetafrúin þó jafnvægi við þetta og beltinu var í snatri safnað saman. Það var svo aftur komið um mitti hennar þegar gengið var til kirkju.

Að guðsþjónustu lokinni var gengið yfir í Alþingishúsið þar sem Ólafur Ragnar Grímsson sór embættiseið sinn.

Í ávarpi sagði hann að þótt nú blási á móti í efnahagslífinu sé engin ástæða til þess að örvænta eða grípa í skyndi til örþrifaráða. Þjóðin sé betur undir það búin en áður að rétta úr kútnum. Íslendingar hafi áður siglt úfinn sjó.

Forsetafrúin Dorrit Moussaieff var að vanda glæsileg. Hún klæddist skautbúningi sem var saumaður árið 1938. Hann saumaði Jakobína Thorarensen, annáluð hannyrðakona. Upphaflega var hann saumaður á Jósefínu Helgadóttur eiginkonu Skúla Guðmundssonar fyrrum alþingmanns, ráðherra og kaupfélagsstjóra í Húnavatnssýslu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×