Innlent

Varaformaður allsherjarnefndar vill lög gegn nektardansstöðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson
Það kemur fyllilega til greina að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að nektardans sé stundaður hér á landi, að mati Ágústar Ólafs Ágústssonar, varaformanns allsherjarnefndar Alþingis. Borgarráð skoraði á Alþingi í morgun að setja slík lög.

„Mér finnst þetta koma fyllilega til greina. Það er full ástæða til að taka svona áskorun frá borgarstjórn alvarlega. Þetta hlýtur þá að koma til umræðu annað hvort á vettvangi allsherjarnefndar eða þingsins," segir Ágúst. Hann segir að gæta þurfi að því að slík lög stangist ekki á við ákvæði í stjórnarskránni.

„En öll löggjöf er ákveðið hagsmunamat og ég held að fáum ef nokkrum hugnist þessi starfsemi. Og ég held að löggjafin þurfi að vera vel með á nótunum þegar kemur að því að berjast gegn klámvæðingu og ofbeldi gegn konum," segir Ágúst

Ágúst segist vonast til að þing og ekki síst dómsmálaráðuneytið taki áskorun borgarráðs til skoðunar.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagðist vera staddur erlendis og hefði ekki séð þessa askorun þegar Vísir leitaði eftir viðbrögðum frá honum. Í tölvuskeyti til Vísis sagði hann að hann myndi að sjálfsögðu kynna sér efni hennar.

Ekki náðist í Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar Alþingis, við vinnslu þessarar fréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×