Innlent

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós stofnsett

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, ásamt Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, og kínverskum ráðamönnum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, ásamt Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, og kínverskum ráðamönnum.

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós var stofnsett við hátíðlega athöfn í hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands á dögunum en með því eflir Háskólinn samskipti sín við Kína. Háskóli Íslands stendur að rekstri stofnunarinnar í samstarfi við Ningbo-háskóla sem staðsettur er í samnefndri hafnar- og viðskiptaborg í Zhejiang-fylki í Kína.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að skólinn eigi þegar í allmiklu samstarfi við Ningbo-háskóla, en átta íslenskir nemendur séu á leið í skiptinám við skólann næsta haust.

Þá segir að Konfúsíusarstofnunin sé fyrst og fremst menntastofnun sem sé ætlað að standa að námskeiðahaldi í kínversku og stuðla að fræðslu um kínverska menningu og samfélag. Í dag séu yfir 200 slíkar stofnanir í heiminum, þar af ein í hverju Norðurlandanna.

„Á opnunarhátíðinni fluttu bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands ávörp og fögnuðu því að stofnunin liti nú dagsins ljós. Þá tóku einnig til máls Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra Ísland í Kína, Shen Minguang, forstöðumaður menntamálastofu Zhejiang-fylkis, Ye Feifan, vararektor Ningbo-háskóla og Lei Yunzia, sendifulltrúi í kínverska sendiráðinu," segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×