Innlent

Hóflega bjartsýnn á gengi Íslands

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

Geir H. Haarde forsætisráðherra kveðst vera hóflega bjartsýnn á árangur Íslands í kosningunni til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fram fer eftir rúmar fjórar vikur. Vísir náði tali af Geir þar sem hann er staddur í New York ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þar sem þau taka þátt í svonefndri ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Kosið verður á milli Íslands, Austurríkis og Tyrklands um tvö laus sæti í Öryggisráðinu. Til að ná kosningu þurfa löndin að hljóta stuðning að minnsta kosti tveggja af hverjum þremur aðildarríkjum á allsherjarþinginu.

Geir sagði í samtali við Vísi að viðbrögð við framboð Íslands hafi hingað til verið ágæt. ,,En það er aldrei að vita við hverju má búast."

Aðspurður sagðist Geir ekki geta sagt til hvaðan stuðningurinn kæmi helst og hann vildi ekki nefna neina heimsálfu sérstaklega. ,,Aftur á móti er lögð áhersla á að nema ný lönd ef svo má að orði komast," sagði Geir og nefndi sem dæmi Afríkuríki og eyríki sem hann sagði að væru býsna mörg.

Geir hringir bjöllunni í Nasdaq-kauphöllinni á föstudaginn kemur, sama dag og hann mun flytja ræðu á allsherjarþinginu og jafnframt funda með Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×