Innlent

Texture í hópi 10 bestu veitingahúsa í London

Fréttaveitan Bloomberg segir í dag að veitingastaður Agnars Sverrissonar, Texture, sé í hópi 10 bestu veitingastaða í London þegar verð og gæði eru borin saman.

Richard Vines veitingahúsagagnrýnandi Bloomberg setur Texture í hóp staða á borð við L´Anima, China Tang og Maze Grill sem er í eigu Gordon Ramsey. Þeir tíu toppstaðir sem Vines fjallar um eiga það sameiginlegt að þar er hægt að fá þriggja rétta sælkeramáltíð á undir 50 pundum eða um 7.000 kr.

Vines segir að Agnar Sverrisson hafi fundið sinn eigin stíl á þessum flotta veitingastað en hann vann áður hjá hinum heimsþekkta kokki Raymond Blanc.

Agnar noti nær eingöngu breskt og íslenskt hráefni og nefnir Vines sérstaklega íslenska lambið og þorskinn. Réttir Agnars séu léttir og heilsusamlegir án þess þó að nokkuð vanti upp á bragðgæðin. Þá er þess sérstaklega getið að Agnar noti íslenskt skyr við matargerð sína.

Vines endar umfjöllun sína með því að segja að réttir Agnars samhljómi eins og heimsfriður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×