Erlent

Hernaður talibana líklega kostaður með ópíumskattlagningu

Sameinuðu þjóðirnar telja að talibanar hafi grætt 100 milljónir bandaríkjadala með því að leggja 10 prósenta skatt á afghanska bændur sem rækta valmúa fyrir ópíumiðnaðinn. Líklegt er að þeir fjármunir séu notaðir til að kosta hernaðaraðgerðir uppreisnarmannanna.

Þessir bændur búa á svæðum sem talibanar hafa á valdi sínu í Afganistan. Sameinuðu þjóðirnar telja að virði valmúaræktunar seinasta árs hafi verið einn milljarður bandaríkjadala.

Antonio Maria Costa, yfirmaður skrifstofu Sameinuðu þjóðanna sem varðar fíkniefna- og glæpavarnir (UNODC), telur að talibanar græði jafnvel meira á starfsemi af ýmsu tagi í kringum ópíumræktun.

Síðasta ár hefur uppskeran hjá afgönsku bændunum verið ríkuleg og framleiðslan meiri en eftirspurn á heimsvísu. Ekki er vitað hvar umframframleiðslan er geymd en fullvíst er að það sé ekki hjá bændunum sjálfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×