Innlent

Rúmlega helmingi fleiri laxar veiddust í Elliðaánum en í fyrra

Nærri 1500 laxar veiddust í Elliðaánum í sumar og var veiðin því rúmlega helmingi meiri en í fyrrasumar eftir því sem fram kemur í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur.

Þar segir einnig að hrygningarstofninn í ánni og í Elliðavatni virðist hafa styrkst mikið, ekki síst vegna þess hve mörgum veiddum fiskum var sleppt. Veiðimenn slepptu 455 fiskum en í fyrra var sú tala 86.

Bent er á að veiði á landinu hafi verið sú mesta í nærri 20 ár og því séu Elliðaárnar engin undantekning. „Bættar aðstæður í sjónum eru taldar helsta ástæða aukningarinnar en aðgerðir til verndar lífríki ánna og Elliðaárdalarins skipta einnig miklu. Má þar nefna átak í frárennslismálum, bætta veiðivörslu, seiðasleppingar og minnkaðan kvóta veiðimanna. Nú má hver veiðimaður landa tveimur fiskum, en að þeim fengnum veiða á flugu og sleppa. Þá er rekstri Elliðaárstöðvarinnar háttað þannig að gangur náttúrunnar truflist sem minnst," segir í tilkynningu Orkuveitur Reykjavíkur.

Hrygningarstofn Elliðaánna er nú talinn um 1.750 laxar og hefur hann elfst þar sem fleiri löxum er sleppt en áður. „Í erfiðustu árum Elliðaánna, í kringum aldamótin síðustu, varð veiðin minnst árið 2001 eða aðeins 414 fiskar. Á árunum fyrir aldamót var hrygningarstofninn talinn vera einungis um 250 fiskar," bendir Orkuveitan á. Elliðaárnar eru í eigu Reykjavíkurborgar, umsjá Orkuveitu Reykjavíkur og Stangaveiðifélag Reykjavíkur er leigutaki ánna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×