Innlent

Vonast eftir áframhaldandi stýrivaxtalækkunum

MYND/Valli
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, fagnar þeirri ákvörðun Seðlabankans að lækka stýrivexti um 3,5 prósent og vonast til að áframhald verði á.

Stýrivextir eru nú 12 prósent og segir Gylfi að forsvarsmenn ASÍ hafi bent á að undanförnu að lækka þurfi vexti. Forsvarsmenn sambandsins hafi að undanförnu fundað með stjórn Seðlabankans, síðast í gær þar sem þessi sjónarmið hafi verið reifuð.

„Við höfum talið að það væri mjög brýnt við þessar aðstæður, þar sem ofþensluvandinn hvarf á einni nóttu og hætta á hruni blasir við, að gripið yrði til lækkunar á stýrivöxtum. Mesta hættan er sú að háir vextir og mikil verðbólga brenni upp allt eigið fé fólks. Það getur leitt til óðaverðbólgu og gríðarlegs atvinnuleysis," segir Gylfi og bætir við að því hafi þurft að bregðast við. „Við teljum að lækkunarferlið nú eigi að vera snöggt," segir Gylfi enn fremur um stýrivextina.

Næsta verkefni að koma ró á gjaldeyrismarkaði

Hann segir næsta stóra verkefni að koma á ró á gjaldeyrismarkaði. „Gjaldmiðilinn er ekki sjálfbær og atburðarrásin hefur verið sú að við þurfum að leita eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skapa þannig forsendur fyrir því að aðrar þjóðir geti rétt okkur hjálparhönd. Til þess er þessi sjóður stofnaður," segir Gylfi og bendir á að Íslendingar eigi ekki innkomu í erlenda banka á næstu árum.

Gylfi segir að þörf sé á aðgerðaáætlun af hálfu íslenskra stjórnvalda vegna þessa. „Við verðum að leggja fyrir okkur hvernig við ætlum að taka á þessum vanda. Stjórnvöld munu vafalaust fá aðstoð við hana frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er ljóst að ef við fölumst eftir láni þá vill lánveitandinn sjá hvernig að við ætlum að taka á málum og endurgreiða lánið," segir Gylfi enn fremur.

Umræða um IMF byggð á misskilningi

Gylfi telur að umræða um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hér á landi hafi byggt á misskilningi. Fyrri aðgerðir sjóðsins hafi farið fram í löndum sem hafi búið við mikla spillingu og þar hafi allir innviðir hagkerfisins ekki virkað. „Ísland er hins vegar með mjög sterka innviði. Við erum í vanda þar sem fjármálakerfið er hrunið en stofnanir eru sterkar. Íslendingum hefur verið hrósað á alþjóðavettvangi fyrir að vera með sérstaklega sterka innviði og þá eru samskipti aðila á vinnumarkaðarins á sterkum grunni," segir Gylfi. Hann bætir við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þekki vel til innviða kerfisins og getu landsmanna til að ná samstöðu í erfiðum aðstæðum.

Hann bendir á að ASÍ hafi í langan tíma krafið stjórnvöld um aðgerðaráætlun í efnahagsmálum „þannig að gjaldeyrissjóðurinn er ekki að gera neinar kröfur sem við erum ekki að gera sjálf," segir Gylfi. Um fyrri kröfur sjóðsins um breytingar á Íbúðalánasjóði segir Gylfi að þær hafi verið settar fram þegar ofþensla var hér. „Við vorum ósammála því og aðilar í ríkisstjórninni líka. Ég hef enga trú á því að þeir setji þetta á oddinn nú," segir Gylfi.






Tengdar fréttir

Seðlabankinn lækkar stýrivexti um 3,5 prósent

Seðlabankinn hefur ákveðið að lækka stýrivexti sína um 3,5 prósent og verða þeir því 12 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir enn fremur að mikill umskipti hafi orðið í íslenskum þjóðarbúskap undanfarnar vikur.

Frekari lækkun stýrivaxta fer eftir gengisþróun

Stýrivaxtalækkun Seðlabankans kemur Gylfa Magnússyni, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, ekki á óvart. Aftur á móti sé Seðlabankanum þröngur stakkur sniðinn því hann geti í rauninni ekki haft stýrivexti undir verðbólgu, að mati Gylfa.

Vilhjálmur Egilsson: Fagna þessum fyrstu skrefum

„Ég fagna því mjög að bankinn skuli vera kominn á þessa braut. Þetta eru fyrstu skrefin og það fylgja vonandi fleiri í kjölfarið,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um stýrivaxtalækkun Seðlabankans. „Ég hef talið óvarlegt að hafa muninn á milli Íslands og evrusvæðisins meiri en þrú prósent og þangað liggur leiðin,“ segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×