Innlent

Gísli Marteinn: „Alltaf legið fyrir að ég sæti í minni nefndum“

 

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, segist vona að það hafi komið nægilega skýrt fram, að þrátt fyrir að hann sé hættur í nefndum og ráðum á vegum borgarinnar, taki hann enn þátt í vinnuhópum og „minni nefndum".

Á borgarstjórnarfundi í dag var Gísli Marteinn kosinn 2. varaforseti borgarstjórnar en þeirri vegtyllu fylgir seta í svokallaðri forsætisnefnd. Björk Vilhelmsdóttir gagnrýnir kosninguna og segir hana greinilega hugsaða til að hækka laun hans. „Ég get ekki setið í neinum af fagráðunum en það hefur alltaf legið fyrir að ég myndi taka að mér störf í vinnuhópum eða minni nefndum og ég vona að ég hafi sagt það nógu skýrt," sagði Gísli í samtali við Vísi en vísaði að öðru leyti á bloggsíðu sína.

„Í dag hætti ég í umhverfisráði og stjórnkerfisnefnd, en í þeim var ég formaður, og ég hætti líka í skipulagsráði og borgarráði," segir Gísli á blogginu. „Meirihlutinn hefur hinsvegar kosið mig 2. varaforseta borgarstjórnar. Það er mér ljúft og skylt að sinna því verkefni á borgarstjórnarfundum þegar Vilhjálmur forseti og Dagur varaforseti eru báðir fjarverandi eða þurfa að bregða sér frá. Fundir forsætisnefndar eru einnig með þeim hætti að ef fundir í nefndinni eru haldnir þegar ég er ekki viðstaddur, er einfalt mál að hafa mig með í gegnum síma, einsog hefur reyndar oft gerst í forsætisnefnd hingað til."

Gísli bætir því við að skrifstofustjóri borgarstjórnar, sem er framkvæmdastjóri nefndarinnar, hafi sagt sér að þetta ætti að vera vandkvæðalaust. „Það er vonandi að það gangi upp. Ef það kemur í ljós að ég geti ekki sinnt starfi 2. varaforseti með sóma, mun ég að sjálfsögðu óska eftir því að einhver annar verði kosinn í embættið í minn stað."

 










Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×