Innlent

Tugmilljóna vinningshafi enn ófundinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Ég hef aldrei lent í því að hafa ekki fundið áskrifanda og ég er búin að vinna við þetta lengi," segir Guðbjörg Hólm, gjaldkeri hjá Íslenskri getspá, en karlmaður á sextugsaldri sem er áskrifandi að lottómiða og hreppti 29,3 milljónir í útdrættinum á laugardaginn hefur ekki enn látið í sér heyra. Vinningshafinn er búsettur á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Íslenskrar getspár.

„Það er mjög óalgengt að menn séu ekki með GSM-síma en málið er það að hann er bara ekki heima hjá sér svo ég næ ekki í hann í heimasímann en ég veit nákvæmlega hver maðurinn er. Við byrjum á að reyna að ná í menn í gegnum síma en svo sendum við bréf. Við finnum þá alltaf að lokum," sagði Guðbjörg enn fremur.

Hún segir það vera fyrirtækisins að koma vinningum til skila, málið horfi öðruvísi við þegar um áskrifanda er að ræða en miða sem keyptur er nafnlaust í sölukassa úti í bæ. „Vinningar sem eru yfir milljón eru aldrei greiddir út fyrr en eftir mánuð þannig að við höfum alltaf þann tíma," sagði Guðbjörg að lokum. „Við finnum hann, það er alveg á tæru. Þetta er lítið land."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×