Erlent

Um 1700 lögreglumenn vakta ráðstefnu um Írak í Stokkhólmi

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna,  kemur hingað til lands eftir ráðstefnuna í Svíþjóð.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur hingað til lands eftir ráðstefnuna í Svíþjóð. MYND/AP

Lögreglan í Stokkhólmi mun kalla til 1700 lögreglumenn til þess að gæta öryggis á ráðstefnu um framtíð Íraks sem fram fer í borginni á fimmtudag.

Fram kemur á fréttavef sænska ríkisútvarpsins að um fjögur þúsund lögreglumenn séu í lögreglunni í Stokkhólmi en lögreglumenn annars staðar af landinu verða kallaðir til vegna ráðstefnunnar.

Meðal þeirra sem sækja ráðstefnuna á fimmtudag eru Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks. Ætlunin er að meta árangurinn af áætlun sem samþykkt var á fundi í fyrra og kveður á um uppbyggingu Íraks eftir stríðið undanfarin ár.

Á fundinn kemur einnig Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans, en Bandaríkjamenn hafa sakað Írana um að vopna uppreisnarmenn í Írak og kynda þannig undir ófriðarbáli í landinu. Ekki liggur fyrir hvort Mottaki og Rice ræðast við á ráðstefnunni en þess má geta að eftir ráðstefnuna heldur Rice hingað til lands í stutta heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×