Innlent

Rætt um orku- og auðlindafrumvarp á þingi

Önnur umræða um breytingar á lögum á auðlinda- og orkusviði hófst á Alþingi í morgun. Hlé var gert á henni nú klukkan eitt.

Frumvarpið inniheldur ákvæði um að um eignarhald á auðlindinni skuli gilda almenn lög þannig að bann er lagt við framsali beint eða óbeint á eignarrétti á vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram sjö megavött.

Vinstri - grænir ætla að leggja fram breytingartillögur sem miða að því að treysta eignarhald ríkis og sveitarfélaga á orkufyrirtækjum. Gagnrýndu þingmenn flokksins meðal annars að ekki hefði verið haft samráð við fulltrúa sveitarfélaganna við gerð frumvarpsins sem og að frumvarpið geri ráð fyrir sölu á 49 prósenta hlut í Landsneti.

Þá vilja Vinstri - grænir jafnframt að lögin nái yfir Hitaveitu Suðurnesja en fyrirtækið er undanþegið lögunum þar sem það er í eigu bæði opinberra aðila og einkaaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×