Innlent

Útsvarstekjur borgarinnar minnka um 700-800 milljónir á árinu

Útsvarstekjur borgarinnar á árinu verða 700-800 milljónum króna minni en áætlað var. Þetta segir í minnisblaði sem borgarhagfræðingur lagði fram á borgrráðfundi í dag. Borgarráð lýsir yfir áhyggjum af breyttum efnahagshorfum.

Eins og þjóðin fer vart varhluta af er búist við því að það kreppi að á næstu misserum og árum og að því tilefni var lagt fram minnisblað frá borgarhagfræðingi á borgarráðsfundi. Það snýr að forsendum fjárhagsáætlunar 2009 og þriggja ára áætlunar borgarinnar árin 2010-2012.

Fram kemur í minniblaðinu að útsvarstekjur hafi verið ívið minni á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en áætlanir gerðu ráð fyrir. Munar þar þremur til fjórum prósentum. Þá er reiknað með að útsvarstekjur í ár verði í heild minnii en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þær hljóðuðu upp á 39 milljarða og 570 milljónir króna en í minnisblaðinu segir að vafasamt sé að sú áætlun standist og gert er ráð fyrir að útsvarstekjur verði 700-800 milljónum minni en áætlað var.

Þá kemur fram að gera megi ráð fyrir á næsta ári að útsvarstekjur verði um 40,4 milljarðar sem sé um fjögurra prósenta aukning milli ára. Þriggja ára áætlun sé sett fram á föstu verðlagi og ráðist þá fyrst og fremst af íbúaþróun og fjölda starfandi fólks. Í heild er gert ráð fyrir að útsvarstekjur aukist um þrjá milljarða frá 2009 til 2012.

 

Í bókun borgarráðs um málið segir að það lýsi áhyggjum sínum yfir breyttum efnahagshorfum sem þegar hafi haft mikil áhrif á verðbólgu og atvinnuástand og muni auka útgjöld borgarinnar og lækka tekjur. Mikilvægt sé nú að fara vel yfir allar áætlanir borgarinnar í þessu ljósi til að geta mætt þessum breyttu aðstæðum. „Fjármálaskrifstofa hefur undanfarið rýnt áhrif þessara breyttu aðstæðna, m.a. á fundum með sviðsstjórum, í því skyni að undirbúa tillögu um viðbrögð á þessu ári," segir í bókuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×