Innlent

Æsiför endaði með bílveltu

Lögregla höfuðborgarsvæðisins stöðvaði för ökumanns í annarlegu ástandi með því að aka utan í stolna jeppabifreið sem hann ók ógætilega í gærkvöldi. Ökumaðurinn hafði ítrekað haft að engu stöðvunarmerki lögreglu og ekið á ofsahraða undan lögreglu um Breiðholt, Hraunbæ, Árbæ og Grafarholt.

Í hringtorgi við Skarhólabraut í Mosfellsbæ ók lögregla utan í bifreiðina sem valt og hafnaði utan vegar. Ökumann sakaði ekki. Hann var handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglu. Hann var í annarlegu ástandi og verður yfirheyrður eftir að víman rennur af honum.

Þá sinnti annar ökumaður ekki stöðunarmerkjum Lögreglu í Hafnarfirði og ók gegn rauðu ljósi um leið og hann reyndi að komast undan. Í Víðibergi stöðvaði hann bílinn og hljóp á tveimur jafnfljótum undan lögreglumönnum. Þeir hlupu ökumanninn uppi og var hann fluttur á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum næstu mánuði.

Alls voru sex ökumenn teknir grunaðir um ölvun við akstur í nótt. Einn þeirra ók á hús við Öldugötu í Hafnafirði. Hann sagði það hafa verið að þvælast fyrir sér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×