Innlent

Lögreglubifreið skemmd í Reykjanesbæ

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Suðurnesjum í nótt. Ein líkamsárás var kærð og átti hún sér stað á einum skemmtistaðanna. Þá var ölvaður maður handtekinn í Grindavík eftir ólæti. Hann hafði verið að ógna mönnum með hníf og skemmdi bifreið. Hann var vistaður í fangageymslu.

Lögreglubifreið skemmdist er henni var ekið framhjá einum af skemmtistöðum Reykjanesbæjar við Hafnargötu, en ölvaður og æstur maður kastaði í hana bjórflösku. Sá var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Hann verður yfirheyrður síðar vegna málsins.

Tilkynnt var um tvo drengi að skemma bifreiðar í Baugholti með því að ganga yfir þær. Þeir náðu að komst undan, en eigandi einnar bifreiðarinnar hafði reynt að hlaupa þá uppi. Vitað er hverjir drengirnir eru og verður haft tal af þeim síðar. Lögreglan hafði síðan afskipti af tveimur félögum drengjanna sem einnig höfðu verið á staðnum, en þó ekki viðriðnir skemmdarverkin. Voru þeir ölvaðir og höfðu nokkuð af áfengi meðferðis. Þeir voru færðir á lögreglustöðina og foreldrum gert að sækja þá.

Talsvert var um kvartanir vegna hávaða og ölvunar í heimahúsum í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×