Innlent

Stjórnarþingmaður sakar íslensk yfirvöld um valdníðslu og ofsóknir

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar í haust að beita sér fyrir breytingum á lögum sem snúa að því að menn sem hafi hlotið skilorðsbundna dóma verði að víkja úr stjórnum fyrirtækja svo árum skipti. Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag segir að þetta séu vitlaus lög og heimskuleg og því þurfi að spúla dekkið strax, eins og hann orðar það.

„Valdníðslan og ofsóknirnar á hendur Baugsmönnum hafa verið slíkar að með ólíkindum er. Sá er þetta skrifar hefur kannski betri skilning á þessari lensku réttarkerfisins en margur annar. Hæstiréttur hefur síðasta orðið á túlkun laganna, en það er engin trygging fyrir því að hann beri réttlætinu vitni, eins og mörg dæmi sanna," segir Árni.

Árni segir að þegar hver handvömmin reki aðra í réttarkerfinu, brjálæðislegar ofsóknir rannsóknarlögreglu, endalaus málaflækja árum saman, þrjóska og skáldskapartilþrif opinberra rannsóknarlögreglumanna og lögmanna sem hafi valdið kvöl og pínu fyrir fjölda einstaklinga að ófyrirsynju þá sé brýn nauðsyn að bregðast við.

Árni dregur ekkert úr þeim mistökum sem hafi verið gerð. „Það hefur ekkert verið ofsagt í því að íslensk stjórnvöld þurfa að læra af þessum hrikalegu mistökum í réttarkerfinu og svo bætir það gráu ofan á svart að þeir sem stjórnuðu gangi málsins hjá embætti Ríkislögreglustjóra eru settir í skjól og rassinn á þeim púðraður daglega með barnatalkúmi samtryggingarinnar svo vel fari um þá í stólum sínum," segir Árni í Morgunblaðinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×