Innlent

Lúðvík býst ekki við því að frumvarp nái í gegn

Andri Ólafsson skrifar
MYND/GVA

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að niðurstöður úttektar ríkisendurskoðanda á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sýni að endurskoða þurfi hlutverk lögregluembættanna á landinu heildstætt.

Það sé það sama og þingmenn Samfylkingarinnar hafi sagt þegar þeir gagnrýndu frumvarp sem kveður á um að aðskilja þurfi tollgæslu og löggæsluhluta lögreglustjórans á Suðurnesjum. Það hafi verið gagnrýnt að í frumvarpinu fælist aðeins endurskoðun á starfsemi eins embættis en ekki þeirra allra.

Eins og fyrr segir gagnrýndu margir þingmenn Samfylkingarinanr frumvarpið. Þeir sögðust hins vegar ætla að bíða með að segja hvort þeir myndu kjósa á móti því þar til ríkisendurskoðandi lyki úttekt sinni. Nú þegar það hefur verið gert liggur beint við að spyrja Lúðvík um framhaldið.

„Nei, ég býst ekki við því að þetta frumvarp fari í gegn," segir Lúðvík. Hann býst þess í stað við að menn muni setjast niður í sumar og ræða málin heildstætt.

Varðandi embættið á Suðurnesjum sagðist Lúðvík fylgjandi því að embættinu verði skipt upp fjárhagslega en ekki stjórnsýslulega en það er sú lausn sem Jóhann Benediktsson og hans fólk á Suðurnesjum talar fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×