Innlent

Hvaðan komu auður og völd Vatnsfirðinga til forna?

Alþjóðlegur hópur fornleifafræðinga rannsakar hvers vegna Vatnsfjörður í Ísafjarðardjúpi varð eitt ríkasta og valdamesta höfðingjasetur landsins á miðöldum. Samhliða er þar rekinn fornleifaháskóli fyrir nemendur víðs vegar að úr heiminum.

Fornleifauppgröfturinn á þessu fornfræga höfuðbóli er sá umfangsmesti sem fram fer hérlendis um þessar mundir en þarna hefur verið grafið í fornar minjar undanfarinn fimm ár, og meðal annars fundist leifar víkingaskála. Ellefu erlendir nemendur í fornleifafræði fá þarna tækifæri til að læra vinnubrögðin í faginu í umsjá alþjóðlegs hóps fræðimanna. Vatnsfjörður þykir spennandi staður en verkefni fornleifafræðinganna er að komast að því hvað það var í umhverfinu og landslaginu sem gerði höfðingja staðarins svo ríka og volduga.

Séra Baldur Vilhelmsson, sem býr í Vatnsfirði, fylgist með uppgreftrinum og hann skýrir uppsprettu auðs og valds Vatnsfirðinga til forna með því að á Sturlungaöld hafi Snorri Sturluson sett Órækju son sinn yfir staðinn. Vatnsfjörður hafi verið hernaðarlega mikilvægur. Einnig hafi hlunnindajarðir á Ströndum og víðar verið settar undir Vatnsfjörð.

Skoskur piltur er í fornum öskuhaug að grafast fyrir um það hvenær Vatnsfirðingar fóru að nota mó sem brenni í staðinn fyrir viðarkol. Þarna verða yfir tuttugu manns nú í júlímánuði á vegum Fornleifaskólans, en að honum standa Fornleifastofnun Íslands og nokkrir háskólar og stofnanir austan hafs og vestan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×