Innlent

Dæmdur fyrir að ráðast þrisvar á sambýliskonu sína

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa í þrígang ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína.

Fyrsta árásin átti sér stað í febrúar 2004 við skemmtistað á Selfossi en þá hrinti hann konunni þannig að hún úlnliðsbrotnaði. Þá áttu tvær árásir sér stað í fyrra, önnur á Selfossi og hin í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í báðum tilvikum þrýsti hann konunni niður í rúm og hélt henni þar, dró hana síðan eftir gólfi fram í forstofu. Þar náði hún í báðum tilvikum að standa upp en hann hrinti henni þannig að hún skall niður á útidyraþröskuld.

Maðurinn játaði sök í málinu og bar því við að um heimilisofbeldi væri að ræða og að konan hefði oftlega veist að honum áður. „Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði hefur játað brot sín skýlaust en dómarinn getur ekki tekið undir þau sjónarmið að þar sem um heimilisofbeldi sé að ræða eigi það að leiða til refsilækkunar," segir í dómnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×