Innlent

Lögreglan rannsakar sprengjuhótun vegna Gleðigöngu

Sprengjuhótunin sem barst Stöð 2 í gær og beindist að fyrirhugaðri Gleðigöngu Hinsegin daga í Reykjavík þann 9. ágúst næstkomandi getur varðað fangelsi allt að tveimur árum. Lögreglan rannsakar nú fingraför og aðrar vísbendingar í tengslum við málið.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að hótunarbréf barst fréttastofunni í gærmorgun þar sem því var hótað að varpa sprengjum á Gleðigöngu Hinsegin daga sem fram fer 9. ágúst næstkomandi. Bréfið var ritað á ensku en póstlagt hérlendis þann 28. júli síðastliðinn. Fréttastofa afhenti lögreglunni bréfið í gær og er málið í rannsókn. Tæknideild lögreglunnar rannsakar leturgerð og öll fingraför á bréfinu. Að hafa í hótunum með þessum hætti getur varðað allt að tveggja ára fangelsisvist samkvæmt 233. grein almennra hegningarlaga.

Geir Jón Þórissson yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir lögregluna líta allar hótanir alvarlegum augum og finnist ekki sendandi bréfsins þurfi e.t.v. að gera ráðstafanir með viðbúnað í göngunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×