Innlent

Félagar í BHM greiða atkvæði um kjarasamning

Guðlaug Kristjánsdóttir er formaður BHM
Guðlaug Kristjánsdóttir er formaður BHM

Atkvæðagreiðsla hófst í dag meðal félagsmanna í Bandalagi háskólamanna um kjarasamning sem gerður var við ríkið á dögunum. Um er að ræða rafræna atkvæðagreiðslu sem fram fer á heimasíðu bandalagsins, bhm.is. Félagsmenn eru í tilkynningu frá BHM hvattir til að nýta atkvæðarétt sinn en opið er fyrir atkvæðagreiðslu fram á miðnætti á föstudag.

Fjölmörg félög greiða atkvæði um samninginn, þar á meðal Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag háskólakennara á Akureyri, Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag sjúkraþjálfara og Þroskaþjálfafélag Íslands.

Að auki greiða félagsmenn Félags fréttamanna atkvæði um kjarasamning við Ríkisútvarpið ohf. sem undirritaður var 30. júní. Þá verður atkvæðagreiðsla meðal Félags háskólakennara og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands síðar.

Tveir hópar innan BHM eru enn án samninga, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, en samningafundur hjá fyrrnefnda hópnum og samninganefnd ríkisins hófst nú klukkan tíu. Eins og fram hefur komið í fréttum hafa hjúkrunarfræðingar boðað yfirvinnubann á fimmtudaginn kemur ef ekki semst fyrir þann tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×