Erlent

Ungt fólk í Danmörku með lífverði á næturröltinu

Óttinn við ofbeldi og eiturlyf hefur leitt til þess að foreldrar ungs fólks í Danmörku ráða nú lífverði í auknum mæli handa börnum sínum ef þau ætla sér á barinn eða diskótekið.

Fram kemur í fríblaðinu metroXpress að eftirspurn eftir lífvörðum í Danmörku hefur fjórfaldast á undanförnum tveimur árum. Það var árið 2005 að foreldrarnir hófu að ráða lífverði til að fylgja börnum sínum eftir á næturrölti þeirra og síðan hefur eftirspurnin aukist gríðarlega.

Talsmaður öryggisþjónustunnar Exclusive Security segir að dæmigert eigi lífverðirnir að fylgja unga fólkinu allt kvöldið og frammá nótt og sjá um að þau lendi ekki í slagsmálum. Einnig eiga þeir að sjá um að ungmennin skaði sig ekki á of mikilli drykkju.

Talsmaður félags öryggisfyrirtækja segir að á síðasta ári nam veltan í leigu á lífvörðum rúmlega þremur milljörðum króna og er það fjórfalt hærri upphæð en árið 2006. Hann telur að hluti af aukningunni sé mont, fólk vilji stæra sig af því að hafa ráð á lífverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×