Skoðun

Ránfuglar

Ólafur F. Magnússon skrifar um borgarmál

Ránfuglar/ Valur er á veiðum,/ vargur í fuglahjörð,/ veifar vængjum breiðum,/vofir yfir jörð.Þessi orð skáldsins, Jónasar Hallgrímssonar, í ljóðinu „Óhræsið", koma mér í hug þessa dagana, þegar höfundar einkavinavæðingar ríkisbankanna, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, bera víurnar í þær eignir almennings, sem þeir hafa ekki enn náð að sölsa undir sjálfa sig og einkavinina.

Flestir vita að orðið ránfugl þýðir fugl, sem veiðir önnur dýr sér til matar. Færri vita hins vegar að ránfugl er líka maður, sem sætir lagi til að komast yfir eigur annarra. Þar virðist næsta bráð hjá ránfuglum mannlífsins vera orkulindir, orkufyrirtæki, virkjanir og drykkjarvatnið líka!

Ýmsir forystumenn þessara flokka og einkavinir þeirra hafa á undanförnum árum baðað sig ljóma auðmagnsins í stað þess að sæta ábyrgð fyrir að komast yfir eigur almennings fyrir lítið eða ekki neitt. En þeir þurfa lítið að óttast, því umræðunni er stjórnað af fjölmiðlum í eigu auðmanna og ríkisfjölmiðlinum, sem ásamt öflum í Sjálfstæðisflokknum, sjá um að jarða mannorð þeirra, sem með verkum sínum berjast gegn flottræfilshætti, einkavinavæðingu og spillingu.

Það þekkir undirritaður af eigin reynslu, því komið hefur verið á kreik upplognum sögum og hreinum öfugmælavísum um meinta áfengismisnotkun hans og pólitíska spillingu. Það var hins vegar ný reynsla fyrir undirritaðan, þegar arftaki hans í borgarstjórastólnum skoraði á hann að segja af sér vegna gróusagna um persónu hans. Það hefði verið þægilegt fyrir hina nýju borgarstýru, sem fyrirvaralaust og án málefnalegrar ástæðu ákvað að hennar tími væri kominn.

Ekkert virðist títtnefndum ránfuglum mannlífsins heilagt í ásókn þeirra eftir veraldlegum verðmætum og völdum. Skiptir þá engu hvort um er að ræða eigur, störf, öryggiskennd eða mannorð annarra. En þeim vargfugli, sem birtist okkur í líki Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á sviði landsmála og sveitarstjórnarmála, og vofir yfir eigum þjóðarinnar, mun örugglega fatast flugið á næstunni.

Réttlætiskennd almennings mun sjá til þess.






Skoðun

Sjá meira


×