Innlent

Fjöldamorð framin til að uppræta Hamas - 195 látnir

Sveinn Rúnar Hauksson.
Sveinn Rúnar Hauksson.

Ísraelar fremja fjöldamorð á Palastínumönnum á Gaza-svæðinu til að ganga á milli bols og höfuðs á Hamas-samtökunum, að mati Sveins Rúnars Haukssonar formanns félagsins Ísland-Palestína. Hann segir að árásin í morgun hafi verið yfirvofandi um nokkurt skeið. Það styttist í þingkosningar í Ísrael og frambjóðendur keppast við að lýsa því yfir að þeir vilji eyða Hamas.

Ísraelsher hóf í morgun röð loftárása á Gaza-ströndina sem svar Ísraelsstjórnar við sprengjuárásum Hamasliða á ísraelskt landsvæði eftir að vopnahlé þessara aðila rann út í sandinn 19. desember. 195 Palestínumenn eru látnir og yfir 200 slasaðir.

,,Það er verið að grípa til fjöldamorða gagnvart íbúunum. Fólkið er algjörlega varnarlaust gagnvart þessum nútímahernaði Ísraela sem eru með fullkomnustu árásarflugvélar og flugskeyti sem Bandaríkin framleiða," segir Sveinn.

19. júní var var gert hálfsárs vopnahlé og segir Sveinn að Ísraelsstjórn hafi aldrei virt samkomulagið því hluti af því hafi verið að aflétta umsátrinu um svæðið. Það hafi ekki verið gert. Auk þess hafi árásum á svæðið verið haldið áfram. Aftur á móti hafi dregið úr þeim allt þar til gengið var til kosninga í Bandaríkjunum í byrjun nóvember.

Sveinn segir að Ísraelsher hafi staðið fyrir stórfelldum árásum á Gaza-svæðið þegar athygli umheimsins beindist að Bandaríkjunum. Í kjölfarið hafi andspyrnuhópar svarað fyrir sig enen í rauninni hafi það verið Ísraelsstjórn sem kallaði fram þau viðbrögð, að mati Sveins.

Sveinn segir að félagið Ísland-Palestína skori á íslensk stjórnvöld að láta í sér heyra og beita sér því algjörlega óviðunandi sé að horfa upp á miskunnarlaus morð á varnarlausum íbúum Gaza-svæðisins.


Tengdar fréttir

120 látnir eftir loftárásir Ísraela

Rúmlega 120 Palestínumenn eru látnir og yfir 200 særðir eftir að Ísraelar hófu röð loftárása á Gaza-ströndina í morgun. Tugum flugskeyta hefur verið skotið á skotmörk á svæðinu, þar á meðal lögreglustöð. Gaza-svæðið hefur verið á yfirráðasvæði Hamas-samtakanna frá í júní 2007.

Egyptar fordæma loftárásir Ísraela - 155 látnir

Stjórnvöld í Kaíró fordæma loftárásir Ísraela í harðorði yfirlýsingu sem ríkisfréttastöðin Mena birti fyrir stundu. Egyptar telja að Ísraelar beri fulla ábyrgð á dauða yfir 155 Palestínumanna á Gaza-svæðinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×