Skoðun

Að gefnu tilefni

Sigmar Eðvarsson skrifar

Í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 24. júlí, beina Guðmundur Guðmundsson og Ólafur R. Sigurðsson nokkrum spurningum til mín fyrir hönd Frjálslynda flokksins í Grindavík. Sjálfsagt er að svara þeim.

Kostnaður af bæjarstjóraskiptum er hvergi kominn í ljós og verður miklu meiri heldur en hefur verið sagt þegar öll kurl koma til grafar. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur gerðu saman ráðningarsamning við Ólaf Örn Ólafsson. Samningurinn var eins og samningur sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gerðu 1998 við forvera Ólafs, Einar Njálsson. Sams konar samningur, sama krónutala.

Þegar samningurinn við Ólaf var gerður voru áform flokkanna að starfa saman út kjörtímabilið. En vegna eiginhagsmunasemi Jónu Kristínar og valdagræðgi hrifsaði hún til sín sætið og gerði þar með bæjarstjórastólinn að pólitísku bitbeini. Það er eitt að gera samning annað að rifta. Þegar samningi er rift þá kostar það peninga og sú ábyrgð mun alltaf hvíla á herðum þeirra sem það gerðu.

Framsóknarflokkur og Samfylking gerðu starfslokasamninginn við Ólaf Örn og enginn annar. Þess vegna er hann á þeirra ábyrgð núna.

Útreiknaður launasamningur við nýjan bæjarstjóra, sem nýr meirihluti hefur sagt að sé sá kostnaður sem bæjarbúar muni bera, er 985.000 kr. á mánuði, auk aksturskostnaðar upp á 120.000 kr. og vaxtatap að jafnaði 243.000 kr. á mánuði. Samtals hljóðar þetta upp á heilar 40.296.144 kr. að núvirði. Í Grindavík búa 2.720 íbúar og þýðir þetta 14.815 kr. skatt á hvern íbúa.

Ég gat ekki greitt atkvæði mitt með nýjum ráðningarsamningi við Jónu Kristínu, þó svo að hann væri sagður 20% lægri en það eru ósannindi því bílastyrkurinn var hækkaður um 25%. Mér finnst í lagi að greitt sé vel fyrir reynslumikinn og vel menntaðan mann með rekstrar- og stjórnunarhæfileika eins og bæjarstjóri þarf að vera. Í þessu tilfelli finnst mér mikið vanta upp á.

Að lokum vil ég benda á að Ólafur og Guðmundur ættu að snúa sér með allar þessar spurningar til Björns Haraldssonar, bæjarfulltrúa Frjálslyndaflokksins í Grindavík. Hann studdi þessi bæjarstjóraskipti með því að greiða því atkvæði á síðasta bæjarstjórnarfundi. Hann hlýtur að vita hvað hann var að styðja.

Höfundur er fulltrúi D-lista í Grindavík.










Skoðun

Sjá meira


×