Erlent

Forsætisráðherra Dana gæti orðið næsti framkvæmdastjóri NATO

Politiken segir að Rasmussen geti orðið næsti framkvæmdastjóri NATO.
Politiken segir að Rasmussen geti orðið næsti framkvæmdastjóri NATO.

Góðar líkur eru taldar á að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, geti orðið næsti framkvæmdastjóri NATO. Þetta fullyrðir danska blaðið Politiken, en blaðamaður þeirra hefur rætt við fjölda háttsettra embættismanna hjá NATO og utanríkisráðherra í ríkjum sem standa að bandalaginu. Þeir benda á að það sé kominn tími á að fulltrúi Norðurlandaþjóðanna gegni þessu embætti.

Einnig er bent á að Rasmussen njóti mikils trausts hjá Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. Hann sé jafnframt í góðu sambandi við stjórnvöld í Þýskalandi, Stóra-Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá er bent á að Danir hafi tekið þátt í verkefnum NATO í Afganistan og á Balkanskaga.

Rasmussen hefur jafnframt verið orðaður við nýjar stöður forseta og utanríkisráðherra Evrópusambandsins sem skipað verður í á þessu ári. Þó er bent á að aðildarríkin muni ekki geta sætt sig við forystumann úr ríki sem ekki hafi tekið upp evruna. Sjálfur heldur Rasmussen því fram að hann sé hvergi á förum úr embætti forsætisráðherra Danmerkur.

Nýr framkvæmdastjóri NATO verður ekki valinn fyrr en í fyrsta lagi að ári liðnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×