Innlent

Árni Matt krefst þess að DV biðjist afsökunar

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hefur krafið DV um afsökunarbeiðni vegna forsíðufréttar blaðsins í dag. Þar er Árni sagður græða "fölsku lögheimili".

DV segir frá því í dag að Árni fái mánaðarlegar greiðslur byggðar á því að hann skrái vísvitandi rangt lögheimili.

"Þessi fullyrðing er algjörlega röng og á ekki við nein rök að styðjast, enda fá alþingismenn engar greiðslur tengdar lögheimili sínu," segir Árni.

"Annars vegar fá þingmenn dreifbýliskjördæma greiðslur vegna kostnaðar við ferðir og uppihald í kjördæmi sínu. Þær greiðslur fá allir þingmenn dreifbýliskjördæma, óháð búsetu eða lögheimili. Hinsvegar geta þingmenn dreifbýliskjördæma fengið greiðslur ef þeir halda tvö heimili á landinu, óháð því hvar lögheimilið er skráð."

Árni hefur hins vegar aldrei óskað eftir slíkum greiðslum. Hann fer fram á því að DV biðjist afsökunar og leiðrétti rangfærslurnar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×