Innlent

Veruleg óvissa um kjaraviðræður framhaldsskólakennara

Aðalheiður Steingrímsdóttir er formaður Félags framhaldsskólakennara.
Aðalheiður Steingrímsdóttir er formaður Félags framhaldsskólakennara. MYND/Heiða

Veruleg óvissa er um framhald kjaraviðræðna framhaldsskólakennara og ríkisins og hafa samningaviðræður gengið hægt. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Félagi framhaldsskólakennara. Þar er bent á að kjarasamningur framhaldsskólakennara hafi runnið út um síðustu mánaðamót.

Í tilkynningunni segir einnig að framhaldsskólakennarar hafi dregist verulega aftur úr í launum miðað við samanburðarhópa hjá BHM. Samtímis hafi ársnemendum á hvert kennslustarf fjölgað mikið og framleiðni skólanna þannig aukist í ákveðnum skilningi. Í samræmi við það hafi rekstrarafkoma skólanna batnað verulega.

„Kennarar, námsráðgjafar og stjórnendur hafa ekki notið ávaxtanna af þeim rekstrarbata. Þetta er ekki í samræmi við markmið þess kjarasamnings sem nú er laus," segir í tilkynningunni. Þá bendir FF á að upplýsingar OECD um samanburð á árslaunum kennara í dollurum á kaupmáttarvirði sýni þar að auki að kennaralaun á Íslandi séu með þeim lægstu í aðildarríkjunum. Úr þessu þurfi að bæta. „Koma verður í veg fyrir að svipað ástand skapist og árið 2000 þegar óánægja kennara með laun og starfskjör leiddi til tveggja mánaða verkfalls," segir Félag framhaldsskólakennara.

Enn fremur er bent á þær breytingar sem verða með nýjum lögum um framhaldsskóla.„ Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum telja mjög mikilvægt að menntamálaráðherra og fjármálaráðherra standi sameiginlega að viðræðum við forystumenn félaganna um faglega og kjaralega hlið breytinga sem fyrst. Félagsmenn KÍ í framhaldsskólum gera með öðrum launamönnum þá kröfu til fjármálaráðherra að strax verði gengið til kjarasamninga við ríkisstarfsmenn. Það er allra hagur að eyða óvissunni sem fyrst," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×