Erlent

Afríkuleiðtogar funda um ástandið í Simbabve

Leiðtogar ríkja í sunnanverðri Afríku koma saman í Svasílandi í dag til að ræða ástandið í Simbabve. Forsætisráðherra Kenía varar við þjóðarmorðum þar, svipuðum þeim sem framin voru í Rúanda fyrir fjórtán árum, ef alþjóðasamfélagið grípi ekki þegar í taumana.

Allt stefnir í að Robert Mugabe verði áfram forseti Simbabve. Seinni umferð forsetakosninganna, sem fara eiga fram á föstudaginn, verður ekki frestað þó Morgan Tsvangirai, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, hafi tilkynnt um helgina að hann væri hættur við framboð sitt.

Breska dagblaðið Guardian birtir í dag bréf eftir Tsvangirai þar sem hann hvetur Sameinuðu þjóðrnar til að einangra Mugabe og segir nauðsynlegt að senda friðargæslulið til Simbabve.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt ofbeldi gegn stjórnarandstöðunni í Simbabve sem var ástæðan fyrir því að Tsvangirai dró sig í hlé og leitaði hælis í sendiráði Hollands í Harare.

Leiðtogar ríkja í sunnanverðri Afríku koma saman til fundar um málið í Mbabane, höfuðborg Svasílands, í dag. Thabo Mbeki, forseti Suður-Afríku verður ekki viðstaddur en hann hefur reynt að miðla málum í deilunni. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að ganga ekki fram af nægilegri hörku í málinu. Talsmaður Mbekis segir að honum hafi ekki verið boðið en það er þvert á það sem kemur fram í tilkynningu um fundinn. Talsmaður ríkisstjórnar Mugabes segir að fulltrúum hennar hafi ekki verið boðið.

Raila Odinga, forsætisráðherra Kenía, varar við því að ef ekkert verði að gert geti komið til umfangsmikilla átaka í Simbabve sem leiði til þjóðarmorða svipuðum þeim sem framin voru í Rúanda 1994 þegar átta hundruð þúsund Tútsar og hófsamir Hútúar voru myrtir á hundrað dögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×