Innlent

Sýknaður af ákæru um árás á eiginkonu og dóttur

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag karlmann af ákæru um líkamsárás gegn konu sinni og uppeldisdóttur á heimili þeirra í júlí í fyrra.

Manninum var gefið að sök að hafa slegið konuna einu sinni í andlitið og hrint henni í gólfið og sparkað í hana þannig að hún hlaut sjáanlega áverka. Þá var hann ákærður fyrir að hafa á sama stað ýtt við uppeldisdóttur sinni þannig að hún féll í gólfið og sparkað í hana.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu viðurkenndi maðurinn að hafa slegið konuna en við aðalmeðferð málsins fyrir dómi sagði hann konuna hafa gengið á höndina þegar hann var að vísa henni út. Varðandi hrindingarnar sagði hann konuna hafa fallið um ferðatösku þegar hann reyndi aftur að vísa henni út úr húsinu.

Framburður konunnar var hinn sami og mannsins við skýrslutöku en breyttist eins og hjá manninum við aðalmeðferð málsins. Dómurinn segir að fólkið sé eitt til frásagnar um málið og út frá sönnunargögnum taldi dómurinn að um óhappatilvik væri að ræða.

Ljóst væri að konan hefði fengið áverka völdum mannsins en þar sem ekki teldist sannað að um ásetningur mannsins hefði staðið til þess að skaða hana heldur að koma henni út eftir rifrildi yrði manninum ekki refsað.

Maðurinn neitaði enn fremur að hafa ráðist á uppeldisdóttur sína og þar sem framburður vitna í málinu var ekki afdráttarlaus var hann sýknaður af þessum hluta ákærunna líka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×