Innlent

Helguvíkurálver fær losunarheimildir

Byrjað er að steypa upp kerskála álversins í Helguvík.
Byrjað er að steypa upp kerskála álversins í Helguvík.

Rio Tinto Alcan, álver Norðuráls í Helguvík og Alcoa Fjarðaál í Reyðarfirði fengu í dag úthlutað losunarheimildum fyrir gróðurhúsalofttegundir. Úthlutunarnefnd losunarheimilda lauk í dag fyrstu árlegu endurskoðun á áætlun sinni.

Alcan fær 152 þúsund tonna losunarheimild til aukinnar framleiðslu, Norðurál fær 539 þúsund tonn vegna fyrri áfanga Helguvíkurálvers og Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði 29 þúsund tonn til aukinnar álframleiðslu. Samtals gera þetta rúm 720 þúsund tonn í losunarheimildir.

Aðeins er úthlutað til atvinnurekstrar sem hyggur á nýja eða aukna framleiðslu fyrir árslok 2012. „Miðað við fyrirliggjandi gögn telur nefndin ljóst að undirbúningur áðurnefndra framkvæmda er það langt á veg kominn að framleiðsla geti hafist á umræddu tímabili," segir í tilkynningu umhverfisráðuneytisins.

„Að mati nefndarinnar eru ekki forsendur til að úthluta heimildum til annarra umsækjenda að svo stöddu. Óvissa er enn um stöðu þeirra t.d. varðandi orkuöflun, niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, útgáfu starfsleyfis og skipulagsforsendur. Þau fyrirtæki sem hér um ræðir eru RioTinto Alcan í Þorlákshöfn, Tomahawk Development í Helguvík, Alcoa á Bakka við Húsavík og RioTinto Alcan í Straumsvík 2," segir í tilkynningunni.

Nefndin hyggst auglýsa losunarheimildir til umsóknar á næsta ári og gefst þá tækifæri til að senda inn nýjar umsóknir. Þá verða eftir til ráðstöfunar um 1,1 milljón losunarheimilda.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×