Innlent

Símarnir rauðglóandi hjá Glitni í morgun

Símarnir í þjónustuveri Glitnis hafa verið rauðglóandi í morgun þar sem fólk hefur verið að forvitnast um stöðu bankans eftir tíðindi gærdagins. Þrír af tíu sjóðum Glitnis verða lokaðir fyrir viðskipti í allan dag.

Fréttastofa hringdi nú fyrir hádegið í þjónustuver Glitnis þar sem starfsmenn hafa verið önnum kafnir við að svara fyrirspurnum frá viðskiptavinum bankans. Fólk mun vera ótrúlega rólegt yfir tíðindum gærdagsins og ýmsum létt yfir því að bankinn sé kominn í ríkiseigu. Enn er ekki hægt að sýsla með peninga í þremur af tíu sjóðum Glitnis - en sjóðirnir eru sparnaðarleiðir sem bankinn býður viðskiptavinum.

Engin leið var að ná sambandi við nokkurn mann hjá Glitni sjóðum, en að sögn upplýsingafulltrúa bankans var ákveðið að hafa áfram lokað fyrir viðskipti í þessum sjóðum vegna þeirrar óvissu sem upp kom í gær. Hann gat ekki skýrt þessa óvissu nánar. Hins vegar verði opnað fyrir viðskipti eins skjótt og kostur er. Hann segir fólk ekki hafa verið að koma í bankann til að taka út sitt sparifé þvert á móti séu viðskiptavinir almennt rólegir yfir aðkomu ríkisins að bankanum.

Bankinn sendi frá sér yfirlýsingu nú laust fyrir fréttir þar sem segir að til að vernda hagsmuni eigenda skírteina í sjóðum 9, 1 og myntsjóðs evru og tryggja verðmæti eigna verði þessir sjóðir lokaðir í dag. Sú ákvörðun sé tekin í fullu samráði við Fjármálaeftirlitið. Vonast er til að hægt verði að opna fyrir viðskipti í þeim á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×