Innlent

Foreldrar brýni fyrir börnum að handfjatla ekki sprautunálar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Við höfum bent foreldrum á það og ég ítreka það hér að brýna það fyrir börnum sínum að vera ekki að handfjatla hluti eins og sprautur eða nálar heldur hafa strax samband við lögreglu. Við komum þá og tökum þessa hluti í okkar vörslu og eyðum þeim," segir Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn spurður um sprautunálar sem fundist hafa í Laugardal og það ástand þar sem hefur gert það að verkum að margir foreldrar vilja ekki að börn þeirra séu á ferð í dalnum fótgangandi.

Árni segir erfitt að koma í veg fyrir notkun fíkniefna á opnum svæðum og sérstaklega þeim svæðum þar sem ekki er stöðug umferð fjölda fólks. „Við höfum til dæmis haldið úti göngueftirliti í Laugardalnum en það er erfitt að fara á mis við þetta, við þurfum nánast að koma að fólki að sprauta sig til að við getum gert eitthvað," segir Árni og bendir á að svæði á borð við Örfirisey, Elliðaárdal og Öskjuhlíð séu undir sömu sök seld og þarna þyrfti mjög skipulagt og mikið eftirlit til að gagn sé að.

Hann sagði bestu forvarnirnar felast í því að foreldrar ræddu við börnin og eins þægi lögreglan fegins hendi allar ábendingar um fíkniefnaneyslu hafi fólk rökstuddar grunsemdir um einhverja einstaklinga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×