Innlent

Yfir helmingur telur ríkisstjórnina hafa staðið sig illa

Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa í stjórnun efnhagsmála samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir fréttastofu Stöðvar tvö. Óánægjan er mest meðal tekjuminna fólks.

Könnunin var framkvæmd dagana 22. til 26. maí. Í úrtakinu voru tæplega ellefu hundruð manns á aldrinum 16 til 75 ára á landinu öllu. Svarhlutfall var 53,3 prósent.

Spurt var: Hversu vel eða illa finnst þér ríkisstjórnin hafa staðið sig í stjórnun efnhagsmála?

Af þeim sem tóku afstöðu töldu eitt prósent að ríkisstjórnin hefði staðið sig mjög vel. 13,1 prósent töldu að ríkisstjórnin hefði staðið sig frekar vel og þrjátíu prósent hvorki vel né illa.

Meirihlutinn, eða um 56 prósent þeirra sem tóku afstöðu töldu að ríkisstjórnin hefði staðið sig frekar illa eða mjög illa.

Ef horft er til búsetu er óánægjan mest í Reykjavík en þar telja sextíu og þrjú prósent að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa í efnhagsmálum. Þegar kemur út á landsbyggðina dregur örlítið úr óánægjunni en þar telja 56 prósent að ríkisstjórnina hafi staðið sig illa en 13 prósent að hún hafi staðið sig vel. Óánægjan er mest í yngsta aldurshópnum og meðal þeirra sem hafa hvað minnsta menntun.

Þá er einnig munur á afstöðu þegar kemur að tekjum. Um 67 prósent þeirra sem eru með minna en 250 þúsund krónur á mánuði telja að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa í stjórnun efnhagsmála en 48 prósent þeirra sem eru með 550 þúsund krónur eða meira á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×