Innlent

Lögreglan á Akranesi fann sveðju í bíl

Lögreglan á Akranesi fann sveðju í bíl þegar hún stöðvaði ökumanninn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna síðastliðinn miðvikudag.

Ökumaður og farþegi voru umsvifalaust handteknir þegar bifreiðin var stöðvuð. Ökumaðurinn fyrir að aka undir áhrifum kókaíns, kannabisefna og amfetamíns og farþeginn þegar hann reyndi að losa sig við nokkur grömm af amfetamíni fyrir framan nefið á lögreglumönnunum.

Auk sveðjunnar fundust kókaín, e-töflur og kannabisefni í bifreiðinni ásamt miklu magni af sterkum ávanabindandi lyfjum. Hvorki ökumaður né bílstjóri gátu gert grein fyrir efnunum.

Hvorki ökumaður né farþegi voru skráðir fyrir bifreiðinni og var hún því haldlögð þar til náðist í eigendur hennar og henni komið til skila. Mennirnir yfirgáfu lögreglustöðina þegar þeim var sleppt eftir yfirheyrslur daginn eftir.

Síðastliðið föstudagskvöld var svo ökumaður handtekinn fyrir að aka undir áhrifum kókaíns og síðar um nóttina var ökumaður tekinn fyrir ölvun við akstur og ljós kom að hann var mjög ölvaður auk þess sem hann hafði aldrei tekið bílpróf.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Akranesi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×