Innlent

Tólf mánaða fangelsi fyrir hártoganir

47 ára gamall karlmaður var dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Maðurinn réðst á lögreglukonu á gatnamótum Suðurgötu og Selvogsgötu í Hafnarfirði síðasta sumar. Lögreglukonan hlaut nokkra áverka vegna árásarinnar.

Maðurinn játaði skýlaust brot sitt en honum var gert að sök að hafa rifið í hár lögreglukonunnar sem var við skyldustörft, stungið fingrum sínum upp í munn hennar, klórað hana í tannholdið og slegið hana með krepptum hnefa í vinstri kjálka. Í kjölfarið hlaut hún opið sár á vör og í munnholi, sem sauma þurfti með nokkrum sporum, og eymsli hægra megin í kjálka og kjálkalið.

Með játningu mannsins og öðrum gögnum málsins þótti sannað að hann hefði gerst sekur um brotið. Maðurinn hafði áður hlotið fjögurra mánaða dóm í Hæstarétti en þar af voru þrír mánuði skilorðsbundnir í tvö ár. Með broti þessu rauf hann því skilorð.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot gegn lögreglumanni að störfum eru litin alvarlegum augum. Einnig ber að líta til þess að lögreglukonan er með lýtandi sár á vör, eymsli hægra megin í kjálka og kjálkalið og árásin hefur valdið henni andlegri vanliðan. Varanleg læknisfræðileg örorka var metin 5%.

Maðurinn hefur einnig áður ráðist að lögreglumanni og þótti því hæfilegt að dæma hann í tólf mánaða fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×