Innlent

Þriðjungur ók of hratt

Ríflega þriðjungur ökumanna ók yfir leyfilegum hámarkshraða á höfuðborgarsvæðinu frá mars fram í júlí á vegarköflum þar sem mikið hefur verið um slys.

Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vaktaði 74 umferðarkafla með ómerktri lögreglubifreið sem búin var myndavélabúnaði. Mælingin fram á virkum dögum í íbúðahverfum á stöðum þar sem hraðakstur hefur þótt mikill eða slys og óhöpp tíð.

Markmiðið var að afla upplýsinga um ástand umferðarmála á þessum stöðum og leita lausna þar sem þeirra er þörf. Þetta kemur fram í tilkynningur frá lögreglunni.

Eftirlitið hófst 11. mars síðastliðinn og lauk í byrjun júlí. Þá höfðu 74 vegarkaflar verið vaktaðir á níu svæðum og þar fóru um 8.205 ökutæki. Fjöldi kærðra ökumanna vegna hraðaksturs var 2.513 og því var heildarbrotahlutfallið 31%.

Flestir óku yfir leyfilegum hraða í Laugardals- og Háaleitishverfi eða ríflega 42%. Í Kópavogi, Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi voru 38-39% ökumanna á óleyfilegum hraða. Hlutfallið var minnst í Mosfellsbæ en þar 9% bifreiða ekið of hratt.

Niðurstöður mælinganna voru sendar sveitarfélögum og sérstakar athugasemdir gerðar ef meira en þriðjungur ökumanna ók yfir leyfilegum hámarkshraða. Það er mat lögreglu að í þeim tilvikum þar sem brotahlutfall er hátt þurfi að meta hvort eðlilegt kunni að vera að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hraðakstur verði mögulegur á þeim vegarköflum sem um ræðir eða meta að nýju hvort eðlilegt sé að hækka leyfilegan hámarkshraða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×