Innlent

Nærri fimm þúsund fleiri fluttu til landsins en frá því

Ríflega 4700 fleiri fluttu til landsins en frá því á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Nema aðfluttir umfram brottflutta á þessum tíma um einu og hálfu prósenti af íbúafjölda landsins. Um er að ræða umtalsverða fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra en þá nam fjölgunin um 2600 manns.

Áfram flyst fólk utan af landi og til höfuðborgarsvæðisins. Svokallaður flutningsjöfnuður reyndist jákvæður um 3500 manns á höfuðborgarsvæðinu og hann var einnig jákvæður fyrir alla aðra landshluta nema Austurland og Vestfirði. 150 fleiri fluttu frá Austfjörðum en til þeirra á fyrri helmingi ársins og 44 fleiri frá Vestfjörðum en til þeirra. Fækkunina á Austurlandi má að stærstum hluta rekja til brottflutnings erlendra starfsmanna frá Reyðarfirði þar sem álver Alcoa var reist, en þaðan fluttust 192 á fyrri helmingi ársins.

Eins og undanfarin ár fjölgar erlendum ríkisborgurum sem flytjast til Íslands og hafa þeir aldrei verið fleiri. Á fyrstu sex mánuðum ársins fluttu 4500 fleiri erlendir ríkisborgara til landsins en frá því en þeir foru tæplega þúsund í fyrra.

Þrátt fyrir mikinn aðflutning til landsins hefur orðið nokkur samdráttur á umfangi búferlaflutninga innanlands. Fyrstu sex mánuði ársins var heildarfjöldi skráðra flutninga innanlands 23.208 á móti 25.812 á sama tíma í fyrra.

Rétt er að hafa í huga að nokkur töf getur orðið á því að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og að sama skapi getur dregist að þeir einstaklingar sem flytjast af landi brott séu felldir úr íbúaskrá.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×