Erlent

SÞ stöðvar fltuning á hjálpargögnum til Búrma

MYND/AP

Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að stöðva flutning hjálpargagna til Búrma að sinni eftir að hermenn á vegum þarlendra stjórnvalda lögðu hald á tvær sendingar á Yangon-flugvelli.

Um var að ræða 38 tonn af orkuríku kexi fyrir hina þurfandi í landinu en mikill skortur er á nauðþurftum eftir yfirreið fellibyljarins Nargis í síðustu viku. Maturinn er sagður duga hátt í hundrað þúsund manns og var ætlunin að flytja það með jeppum að Irrawaddy-árósunum þar sem neyðin er einna mest. Þar er talið að um 1,5 milljónir manna þurfi á hjálp að halda.

Talsmaður Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna var bálreiður vegna þessarar ákvörðunar stjórnvalda í Búrma. Stjónvöld víða um heim hafa þrýst á herforingjastjórnina að opna landamæri Búrma svo hægt sé að koma fólki til aðstoðar. Tala látinna í fellibylnum er nú um 23 þúsund og þá er yfir 40 þúsund manna saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×