Innlent

Frístundakort ekki byrjuð að skila tilsettum árangri

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Kjartan Magnússon, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.
Kjartan Magnússon, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.

Frístundakort Reykjavíkurborgar hafa enn sem komið er ekki skilað þeim tilsetta árangri sem vonast var eftir. Nýleg skýrsla sýnir að marktækur munur er á notkun kortsins eftir tekjum því hinir tekjumeiri nýta sér kortið mun betur. „Börn tekjuhærri foreldra hafa frekar tekið þátt í íþróttastarfi en börn tekjuminni foreldra. Eitt af helstu markmiðum frístundakortsins var að snúa þessari þróun við þannig að það væri að minnsta kosti ekki peningaskortur sem hamlaði því að börn gætu stundað íþróttir," segir Kjartan Magnússon, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.

Kortin verða þróuð áfram

Kjartan segir frístundakortin tilraun sem farið hafi verið í með jákvæðum og opnum huga. Þess vegna séu niðurstöðurnar nokkuð sem enginn hafi búist við. „Við vissum samt að þessu yrði ekki snúið við á punktinum. Frístundakortin eru langtímaverkefni og ég bind enn vonir við að börn tekjuminni foreldra taki meiri þátt í íþróttastarfi. Við þurfum kannski að kynna þetta betur en svo kunna líka að liggja aðrar ástæður fyrir þessu en takmarkað fjárráð."

Kjartan vill ekki taka svo djúpt í árinni að verkefnið hafi misheppnast. Kortin þurfi lengri tíma í þróun og farið verður yfir málin á næstu fundum íþrótta- og tómstundaráðs. „Við rennum yfir málin og athugum í framhaldinu hvort að við grípum til leiða til að auðga notkun kortsins."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×